Thursday, April 14, 2011

Hræsni

Íhaldsmaðurinn Ásmundur Einar Daðason yfirgaf ríkisstjórnina í gær og gerði á eins dramatískan hátt og aðstæður buðu honum, í atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina. Hann eins og Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir stökk frá borði kvæsandi rullur um foringjaræði og heilaga andstöðu sína við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.

Það er undarlegt að þremenningarnir skuli ekki sjá hræsnina í eigin málflutningi. Þeir Atli og Ásmundur geta ekki á heilum sér tekið vegna aðilarumsóknarinnar. Engu að síður hafa stofnanir Vinstri grænna samþykkt stjórnarsáttmálann þar sem gert var ráð fyrir aðildarumsókninni og meirihluti Alþingis samþykkti aðildarumsóknina. En þeir félagar sem kenna sig við bætt lýðræðisleg vinnubrögð og saka Steingrím J. Siugfússon um foringjaræði, mega ekki hugsa til þess að landsmenn fái að greiða atkvæði um aðildarsamning að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hver hefur gert Atla og Ásmund að foringjum landsins í þessum efnum? Hvor um sig er í mesta lagi með örfá þúsund atkvæða á bakvið sig sem þingmenn. Hvaðan kom þeim foringjavaldið til að ákveða að þjóðin megi ekki undir nokkrum kringumstæðum  meta sjálf kosti og galla aðildarsamnings og greiða um hann atkvæði?

Tvískinnugurinn er svo augljós og æpandi að það er ekki hægt að taka mark á svona mönnum, sem annað hvort eru með opnum augum að verja mjög þrönga og ímyndaða hagsmuni bændastéttarinnar, eða eru slegnir slíkri þjóðernisblindu að þeir eiga ekkert erindi í sósíalískum flokki.

Sovéthagfræði Lilju Mósesdóttur og blint hatur hennar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er síðan kapituli út af fyrir sig. Kennitölukenning hennar um íslensku krónuna er eitt mesta bull sem litið hefur dagsins ljós í hagfræði. En frekjan og yfirgangurinn býður henni að segja öllum til syndanna þegar meirihluti fæst ekki fyrir skoðunum hennar. Ekkert foringjaræði þar á ferð eða hvað?

Ríkisstjórnin er auðvitað veik með eftirhreiturnar af órólegu deildinni enn í þingflokknum, þau Guðfríði Lilju Grétardóttur og Jón Bjarnason undir forystu Ögmundar Jónassonar. Best væri ef stjórninni tækist að fá stuðning þriggja til fjögurra þingmanna úr Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem styðja Evrópusambands viðræðurnar, stjórnlagaráð og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og VG klofnaði formlega. En ólíklegt er að það sé í boði.

Ríkisstjórnin verður því væntanlega að skrölta áfram með þessi lík í lestinni.

Garðar Hólm

Wednesday, April 6, 2011

Sigur þess að segja nei við umheiminn

Þegar Icesave samningarnir hafa verið felldir og ríkisstjórnin farin frá eins og rök kveða til, blasir eftirfarandi staða við:

1) Fiskveiðistjórnunarkerfinu verður ekki breytt. Fiskurinn í sjónum verður áfram í eigu 50 - 60 einstaklinga á Íslandi.

2) Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dagar uppi og fjarar út, ef hún verður ekki beinlínis kölluð til baka á fyrsta degi endurnýjaðrar ríkissstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

3) Nýir kjarasamningar verða einungis gerðir fram til áramóta. Lágmarkslaun munu ekki hækka og samið verður um litla hækkun launa almennt.

4) Íslenskar stofnanir og fyrirtæki geta ekki vænst eðlilegrar lánafyrirgreiðslu frá bönkum og sjóðum í öðrum löndum um ófyrirséða framtíð. Vextir á lánum sem þrátt fyrir allt fást verða langt yfir markaðsvöxtum.

5) Málaferli vegna Icesave munu standa yfir í 3 til 10 ár og alger óvissa ríkja um niðurstöðuna.

6) Töluverðar líkur eru á að ESB muni lýsa því yfir að Ísland uppfylli ekki lengur helstu stoðir samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og því sé samningurinn gagnvart Íslandi ógildur.

7) Fjórfrelsið um frjálst flæði fjármagns, vinnuafls osfv. milli Íslands og annarra ríkja Evrópu verður í raun ógilt þar sem aðrar þjóðir hætta að taka mark á því, þar sem engar stofnanir ESB munu lengur líta á Ísland sem hluta samningsins. Skólagjöld íslenskra námsmanna í Evrópu munu hækka og þeir verða fyrir fjöldatakmörkunum.

8) Möguleikar íslenskra háskóla og rannsóknarstofnana á styrkjum og samvinnu við evrópskar menntastofnanir munu minnka til muna.

9) Íslenska krónan verður áfram gjaldmiðill landsins. Ef höftum á henni verður aflétt mun gengið falla um tugi prósenta sem mun koma íslenskum útgerðarfyrirtækjum í eigu 50 - 60 manna mjög til góða og þeir verða ríkari sem aldrei fyrr.

10) Enginn erlendur banki mun vilja eiga íslenskar krónur eða gera samninga sem bundnir eru íslensku krónunni. Allir viðskiptasamningar við önnur ríki og fyrirtæki í öðrum ríkjum verða að eiga tryggingar í reikningum með erlendum myntum inn á bönkum í öðrum löndum en Íslandi þar sem íslenskum bankastofnunum verður ekki lengur treyst.- Fjárfestingar í atvinnulífinu, hvort sem um er að ræða stóriðju eða gagnaver og græna atvinnustarfsemi, munu ekki njóta fyrirgreiðslu eða stuðnings erlendra aðila nema með meirihluta eignaraðild eða ráðandi hlutfalli í stjórn fyrirtækjanna.

Þetta eru bara tíu borðliggjandi dæmi, vegna þess að það er svo vinsælt að leggja fram tíu atriði um Icesave þessa dagana, en afleiðingar Nei-sins eru miklu fleiri, afdrifaríkari og ófyrirsjánlegri.

En það er mikilvægast að vera sjálfstæður á heiðum uppi eins og Bjartur  -hann borgaði aldrei skuldir óreiðumanna niður við ströndina.

Garðar Hólm

Miklar líkur á stjórnarslitum um helgina

Flest bendir til að hatursfullur og rangfærður málatilbúnaður svo kallaðs Nei-liðs hafi náð tökum á særðri og reiðri þjóðinni og dregið nægjanlega ull fyrir augu meirihluta hennar að þriðju Icesave samningarnir verði felldir á laugardag. Þar með hafa kjósendur tekið undir vandtraust Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands á þinginu og ekkert annað fyrir forsætisráðherra að gera en segja af sér og óska eftir því að forsetinn að þing verði rofið og boðað til kosninga.

Eins og þeir sem fylgst hafa með stjórnarskrárbreytingum forsetans undanfarin misseri gera sér grein fyrir, er alls ekki víst að forsetinn verði við þessari beiðni forsætisráðherra. Mun líklegra er að sögufíkillinn Ólafur Ragnar sjái enn einn leik á borði við að skrá sig á spjöld Íslandssögunnar, með því að draga upp listann sinn yfir utanþingsráðherra.

Í kurteisisskyni mun hann fyrst athuga ef hægt verður að mynda annan meirihluta á þinginu, sem ekki verður hægt ef þingflokkar núverandi stjórnarflokka vilja ekki í nýja stjórn. Þá mun forsetinn til málamynda spyrja forystu núverandi stjórnarflokka hvort þeir gætu hugsað sér að verja minnihlutastjórn falli. Ef svarið við þeirri spurningu er einnig nei, mun hann skipa utanþingsstjórn og fara þar með eins og oftast áður eftir þeirri rödd frá lýðnum sem hann telur líklegasta til að afla honum fylgis til endurkjörs í júní á næsta ári og gleymsku á klappstýruhlutverki hans í útrásinni.

Það yrðu mikil mistök hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni að halda stjórnarsamstarfinu áfram ef Icesave samningarnir verða felldir. Ef meirihluti þjóðarinnar fellir samningana, er eðlilegt að hún fái þing og ríkisstjórn sem hún telur að geti leyst úr þeim gríðarlegu úrlausnarefnum sem þjóðin á við að glíma. Má þá einu skipta hvort það er forsetastjórn eða ný stjórn sem byggir á meirihluta á nýkjörnu þingi. Við þær aðstæður er eðlilegt að þjóðin fái yfir sig stjórn sem hún á skilið, sem að öllum líkindum yrði stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks miðað við kannanir, nema eitthvað nýtt afl kæmi fram í kosningum og slægi harmleiknum upp í algeran farsa.

Af  Icesave samningum felldum liggur beinast við að forsetinn og þeir flokkar sem hafa mest haft sig í frammi um að fella þá, fai að spreyta sig á að koma Icesave málum í höfn fyrir dómstólum og taka til í rjúkandi rústum efnahagslífsins; rústum sem hvort eð er eru þeirra. Þá hlýtur réttlætinu að vera fullnægt.

Garðar Hólm