Thursday, January 6, 2011

Einkennileg þráhyggja

Það er einkennileg þráhyggja hjá andstæðingum aðildarviðræðna Íslands við Evrópusambandið innan Vinstri grænna að halda því til streitu að hætta beri viðræðunum. Sú krafa er að sjálfsögðu ekkert annað en krafa um stjórnarslit.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 10. maí 2009 sem samþykkur var í stofnunum stjórnarflokkanna segir:

Ákvörðun um aðild Íslands að Evrópusambandinu verði í höndum íslensku þjóðarinnar sem mun greiða atkvæði um samning í  þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Utanríkisráðherra mun leggja fram á  Alþingi tillögu um aðildarumsókn að Evrópusambandinu á vorþingi. Stuðningur stjórnvalda við samninginn þegar hann liggur fyrir er háður ýmsum fyrirvörum um niðurstöðuna út frá hagsmunum Íslendinga í sjávarútvegs-, landbúnaðar-, byggða- og gjaldmiðilsmálum, í umhverfis- og auðlindamálum og um almannaþjónustu. Víðtækt samráð verður á vettvangi Alþingis og við hagsmunaaðila um samningsmarkmið og umræðugrundvöll viðræðnanna. Flokkarnir eru sammála um að virða ólíkar áherslur hvors um sig gagnvart aðild að Evrópusambandinu og rétt þeirra til málflutnings og baráttu úti í samfélaginu í samræmi við afstöðu sína og hafa fyrirvara um samningsniðurstöðuna líkt og var í Noregi á sínum tíma.

Þetta getur ekki verið skýrara. Það á að sækja um, það á að ná samningsniðurstöðu og það á að leggja þá samningsniðurstöðu fyrir þjóðina. Báðir flokkar áskilja sér rétt til að mæla með eða á móti aðild, EN EKKI AÐ LEGGJAST GEGN VIÐRÆÐUNUM.

Það er því óþolandi fyrir alla að þurfa að hlusta á endalaust suðið í formanni Heimssýnar og þingmanni Vinstri grænna um að hætta beri aðildarviðræðunum. Röfl um aðlögun að sambandinu er móðgun við almenna skynsemi.

Eðlilegt samningaferli

Það er eðilegt, bæði af  hálfu ESB og Íslendinga, að líta svo á að umsókn um aðild sé sett fram af alvöru. Það er því jafnframt eðlileg krafa að hálfu ESB að viðsemjandinn sýni fram á áætlanir um hvernig hann ætlar að framkvæma þær breytingar sem hann verður að gera á stjórnsýslu sinni og lögum, leiði samningarnir til aðildar. Annað væri fásinna og hráskinnaleikur. Og það er einmitt við þetta atriði sem hörðustu andstæðingar aðildarinnar innan Vinstri grænna móðga skynsemina.

Andstæðingar aðildarinnar ættu að sjálfsögðu að sökkva sér ofan í samningsferlið og á þeim nótum mæla gegn því að aðild verði samþykkt. Það er ekkert að því. Það er hins vegar helber dónaskapur og pólitískur loddaraháttur að stilla sér upp fyrir aftan íslensku samningamennina og garga í eyrun á þeim að hætta viðræðunum.

Það fylgir því ýmis kostnaður að fara í alls kyns greiningu á einstökum málaflokkum í tengslum við viðræðurnar og ESB býður styrki til að mæta þeim kostnaði. Hefur boðið þá styrki um nokkurt skeið til allra þjóða sem sækja um aðild. Það er nákvæmlega ekkert að því að þiggja þá styrki. Og það er beinlínis ömurlegt að horfa á sjávarútvegs- og lándbúnaðarráðherrann þvælast þar fyrir eins og staðið ruglað hross. Jón Bjarnason fer fyrir mikilvægustu ráðuneytunum í viðræðunum við ESB, þar sem hagsmunirnir eru mestir. Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðar ætti að kappkosta að ná fram sem bestum samningi fyrir íslenska þjóð, því þótt hann sé á móti aðild, vill hann væntanlega ekki að þjóðin sitji uppi með vondan samning í þessum málum, samþykki hún samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Það er eins og ungbóndanum Ásmundi Daða Einarssyni og gamla brýninu Jóni Bjarnasyni sé fyrirmunað að sjá út fyrir bæjarhelluna heima hjá sér, hvað þá út fyrir sveitina þeirra.


Mögulegt að ná góðum samningi

Það bendir allt til að ef rétt er á málum haldið geti Íslendingar náð fram samningi við ESB sem verði íslenskum landbúnaði og íslenskum almenningi til mikilla hagsbóta. Aðildin mun örugglega kalla á breytingar í atvinnugreininni, en það er líka löngu kominn tími á þær. Staðnað klíkukerfi landbúnaðarins sem byggt var upp af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum í áratugi var aldrei réttlátt og hefur fyrir lifandi löngu gengið sér til húðar og kostað íslenskan almenning stórar fjárhæðir. Í því kerfi hafa flokksskírteini verið helsti aðgöngumiðinn að fyrirgreiðslu bænda og hagsmunir almennings hafa ætíð setið á hakanum.

Hvaða róttækni felst í því fyrir Vinstri græna að styðja þessa stöðnun? Engin. Stuðningurinn byggir á rómantískri þjóðernishyggju annars vegar og þeim hagsmunum Vinstri grænna að halda í atkvæði þeirra kjósenda sem þeir hafa á einum áratug náð að lokka til sín frá Framsóknarflokknum í sveitahéruðum landsins hins vegar. Hvortveggja vondur málatilbúnaður. Það er tími til kominn að þessir liðsmenn Vinstri grænna fari að blása rykið af félagsfræði vinstrimanna og hætti að lepja upp vitleysuna í gömlum félagsritum Kaupfélaganna.

Íslenskur almenningur á heimtingu á því að íslensk stjórnvöld og íslenska samninganefndin geri allt sem í þeirra valdi stendur að ná fram sem hagkvæmastri niðurstöðu í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið. Þjóðin á að fá vandaðar upplýsingar um samning sem hún getur treyst að sé sá besti sem hægt var að ná fram og á þeim grundvelli á hún síðan að ákveða hvort hún vill ganga í samband Evrópuþjóða eða vera utan þess.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment