Friday, December 17, 2010

Ríkisstjórnin í raun fallin

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir er í raun fallin eftir að þrír þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga. Það er engum greiði gerður með því að láta það sem eftir hangir af stjórninni engjast áfram. Með hjásetu Lilju Mósesdóttur, Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar hefur ríkisstjórnin 32 þingmenn, sem er minnsti meirihluti sem hægt er að hafa á Alþingi.

Þá verður að hafa í huga að óróleikaþingmaðurinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er í tímabundnu leyfi frá þingstörfum en birtist væntanlega í þingflokknum von bráðar. Fyrir hana situr í varamannssæti Ólafur Þór Gunnarsson sem er einlægur stuðningsmaður Steingríms J. Sigfússonar formanns og frjálslyndur maður á flestum sviðum. Einstefnukonan Guðfríður Lilja hefur aftur á móti sýnt, að henni er nokk sama um Steingrím, stjórnarmeirihlutann og markmið hans og ef hún hefði setið á þingi í gær, hefðu fjórir en ekki þrír þingmenn setið hjá. Þar með hefði ríkisstjórnin verið búin að vera.

Það er líka öllum ljóst að höfuðpaur órólegu deildarinnar situr glottandi hjá yfir þessum óförum formannsins og fjármálaráðherrans sem hann kann litlar þakkir og vill velta úr formannsstóli. Ögmundur greiddi fjárlögunum eingöngu atkvæði vegna þess að ef ráðherra hefði setið hjá, hefði verið sjálfhætt. Jóhanna hefði farið beint á Bessastaði til hins lýðræðislega kjörna einvalds til að segja af sér.

Ríkisstjórnin er fallin.  Nú veltur allt á einvaldinum á Bessastöðum - tekst honum að hamra saman meirihluta stjórnarandstöðunnar með stuðningi órólegu deildarinnar, eða verður forsetanum að ósk sinni um að skipa utanþingsstjórn til að marka sig enn betur í sjálfsævisögu sína á Bessastöðum? Eðlilegast væri aftur á móti að rjúfa þing og boða til kosninga.

Þær kosningar munu snúast um lausn Icesave málsins og aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Það yrðu afdrifaríkustu kosningar lýðveldisins - þar sem þjóðin fengi í fyrsta skipti frá stofnun lýðveldisins að velja um einangrun frá umheiminum eða þátttöku í alþjóðasamfélagi siðaðra vestrænna þjóða.

Garðar Hólm

1 comment:

  1. Þetta er ágæt greining og ritgrein. Næsta stjórn eftir kosningar gæti verið mynduð úr sömu flokkum en með annarri mannauppröðun og stórn. Með kosningunum gætu helstu kerruhestar og hrossakaupmenn af gamla skólanum dottið út og án þess að nokkur sakni þeirra. Þá gæti restin af helstu kúlugaurum horfið og jafnvel SPRON æturnar Össur Skarphéðinsson og Árni Þór Sigurðsson. Og svo snillingaliðinu í Sjálfstæðisflokknum Ásbjörn Óttarson, Árni Johnsen, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson. Og svo sjálf Jóhanna, sem er orðin þreytt og Steingrímur Sigfússon verður að fá ákúrur fyrir kvótaleiguhindrun og Icesave-makk.

    ReplyDelete