Sunday, December 5, 2010

Allt útlendingum að kenna

(þessi grein birtist áður á vefsvæði Silfur Egils 6. október 2009, en Egill gerði mér þann greiða að birta hana fyrir mig þegar ég hafði ekki uppgötvað bloggið og hafði enga aðra leið til að koma hugrenningum mínum áleiðis. Takk fyrir hjálpina Egill.)

Pólitískar aðstæður á Íslandi í dag eru að mörgu leyti svipaðar og þær voru í Þýskalandi á árunum milli fyrri og seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar endaði pólitísk upplausn með því að fasistar komust til valda í lýðræðislegum kosningum, bönnuðu fljótlega aðrar stjórnmálahreyfingar og hófu ofsóknir gegn öllum sem höfðu aðrar skoðanir á lífinu og tilverunni en þeir, en þó sérstaklega gegn einum óvini sem allt var að kenna; gyðingum sem “höfðu með alþjóðlegu samsæri sínu” komið Þýskalandi á kaldan klaka. Algerlega var horft framhjá gengdarlausri útþenslu- og heimsvaldastefnu fyrri ára og árhundruða. Allt var gyðingum að kenna og afleiðingarnar þekkja allir.

Efnahagslegu brennuvargarnir í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, hugmyndafræðilegir ábyrgðarmenn hrunsins sem einkavinavæddu eignir ríkisins og færðu þær vinum og vandamönnum á spottprís, sem ekki einu sinni hefur verið greiddur nema að hluta, sjá enga sök hjá sjálfum sér en hafa fundið einn og óskoraðan óvin sem allt er að kenna; Útlönd.

Hrun íslensku bankanna, allir erfiðleikar Íslendinga, gífurlegur halli á ríkissjóði og fáheyrð skuldabyrði þjóðarinnar er Útlöndum að kenna. Ef það eru ekki Hollendingar og Bretar, þá er það Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Ef ekkert væri Evrópusambandið þá væri allt í sómanum á Íslandi.

Og það má að hluta til sanns vegar færa vegna þess að með inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið hófst mikið blómaskeið í íslenskum efnahagsmálum. Með þeirri inngöngu varð íslenskt efnahagslíf hluti af 400 milljóna markaði, laut sömu reglum og aðildarríki Evrópusambandsins, hafði sömu réttindi til athafna en einnig sömu skyldur.

Íslenskir fílar í postulínsverslun

Þetta kom Íslendingum til góða og útrásarvíkingarnir svo kölluðu, með einkavinina í hinum nýgefnu bönkum í broddi fylkingar færðu sér þetta í nyt eins og engir aðrir. Þeir höguðu sér eins og fílar í postulínsverslun, ruddust inn í Evrópu sperrtir og montnir og keyptu heimsfrægar eignir í hrönnum út á krít hjá bönkunum sem þeim voru gefnir. Ekkert var keypt fyrir eigið fé, allt var tekið að láni í því trausti að aldrei yrði skortur á ódýru lánsfé og heimurinn myndi aldrei sjá í gegnum þá, að þeir áttu í raun ekki bót fyrir skuldumvafið rassgatið á sér.

Allt gerðist þetta undir dáleiddum augum hugmyndafræðilegra og pólitískra skapara þeirra sem stoltir og glaðir töluðu um íslenska efnahagsundrið eins engum í heiminum hafi áður dottið önnur eins hagfræðikenning í hug. Pólitískir leiðtogar undursins gerðu engar athugasemdir við “stórkostlega gallað regluverk Evrópusambandsins”, eftirlitsstofnanir voru bara til að nafninu til og ef einhver leyfði sér að gera athugasemdir við þórðargleðina og bruðlið voru þeir kveðnir í kútinn og fjármálaráðherrann hrópaði: “Sjáið þið ekki veisluna drengir?”

Þegar hrunadansinn fór að fara úr böndunum og erlendir sérfræðingar og gagnrýnendur fóru að voga sér að efast um innihald og fót undir íslenska undrinu voru þeir hrópaðir niður sem öfundarmenn; Útlendingar sem ekki skildu hinar sér íslensku aðstæður, hið séríslenska undur. Enda vissu þessir menn að Útlendingar höfðu aldrei í ellefu hundruð ára sögu Íslandsbyggðar skilið þessa útvöldu þjóð, þessa fámennu vellesnu herraþjóð.

Spilaborg byggð á ránsfé

Þegar spilaborgin hrundi með braki og brambolti og íslenska undrið reyndist allt vera innihaldslaus bóla byggð á láns –eða ránsfé frá bönkum sem snillingunum höfðu verið gefnir og hugmyndafræðin og sofandahátturinn hafði leitt yfir þjóðina eina mestu ógæfu hennar í þúsund ár, stóðu höfundar spilverksins eins og rassskelltir apar frami fyrir þjóðinni.

En þeir voru fljótir að hrista af sér slenið. Eftir að hafa verið hraktir frá völdum og þjóðin hafði fyrir einhvern misskilning kosið aðra ríkisstjórn, voru þeir fljótir að finna sinn sameiginlega óvin: Útlönd.

Einn aðalhöfundur nútíma áróðurstækni eða propaganda, Jósef Göbbels vissi betur en aðrir að til að höfða til lýðsins var nauðsynlegt að koma sér upp einum óvini. Í óreiðu kreppunnar og upplausnarinnar í Þýskalandi var of flókið fyrir lýðinn að skýra út fjölþættar ástæður hruns Þýskalands eftir fyrra stríð. Það ruglaði fólk bara í ríminu. Óvinurinn var bara einn: Gyðingar og alþjóðlegt samsæri þeirra gagnvart herraþjóðinni.

Þessi tækni, þessi málflutningur dansar nú um varir fulltrúa gömlu helmingaskiptaflokkanna og hluti Vinstri grænna dansar með ásamt heyhausunum í Hreyfingunni. Upphaf og endir allra ógæfu Íslendinga er Útlönd. Óvinurinn mikli er Útlönd og fyrir alla muni verum ekki að tala um fortíðina. Tölum ekki um þá sem kveiktu í, ráðumst á slökkviliðið fyrir fádæma léleg vinnubrögð og kennum svo Útlöndum um allt saman.

Formaður Framsóknarflokksins og pólitísk unglambahjörð hans í þingflokknum hagar sér eins og Framsóknarflokkurinn hafi verið stofnaður á landsþingi í byrjun árs 2008 og hann eigi engan þátt í því hvernig komið er. Hann hefur kastað öllum syndum Framsóknar á bakvið sig. Og forysta og þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala eins og þau hafi verið í stjórnarandstöðu undanfarin 17 ár og aldrei haft neitt með ríkisstjórn, Seðlabanka og bankakerfið yfirleitt að gera.

Brennuvargar í velferðarflokkum

Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur eru allt í einu orðnir hinir mestu velferðarflokkar sem ekkert aumt mega sjá og telja algeran óþarfa að skera niður eða hækka skatta svo ríkissjóður geti staðið undir byrðunum, enda eru engar byrðar, bara óforskammaðar kröfur frá Útlöndum sem skella ber hurðinni á nefið á og standa í fæturna eins og alvöru sjálfstæðir menn með bein í nefinu.

Það er talað eins og Icesave skuldbindingarnar séu upphafið og endirinn á böli íslensku þjóðarinnar. Það er út af Icesave sem vitleysingarnir í ríkisstjórninni ætla að skera niður í velferðarkerfinu og leggja skatta á almenning og fyrirtæki. Icesave sem varð til á þeirra vakt og engar athugasemdir voru gerðar við og ekkert gert til að stoppa.

Ef engar eignir koma á móti Icesave skuldbindingunum verður reikningur Íslands líklega 750 milljarðar króna. En með innheimtu eigna verður reikningurinn líklega nær 300 milljörðum. Skuldir ríkissjóðs eru hins vegar 1.700 milljarðar króna vegna hrunsins og Icesave er ekki inn í þeirri tölu. Breska og hollenska ríkið hafa tekið á sig rúmlega tvö þúsund milljarða vegna Icesave og erlendir kröfuhafar Icesave óviðkomandi, tapa sennilega 6 til 7 þúsund milljörðum á íslenska efnahagsundrinu.

Brennuvörgunum koma þessar staðreyndir ekki við enda vekja þær athygli á þeirra eigin aðgerðum og aðgerðarleysi. Svo eru þetta bara Útlendingar.

Þegar allt fór á hvolf voru skitnir 16 milljarðar króna í Tryggingasjóði innstæðueigenda. Þessi sjóður átti að standa undir öllum innstæðum viðskiptavina íslensku bankanna ef illa færi. Það þýðir að ef greiða átti jafnt til allra íslenskra viðskiptavina bankanna úr sjóðnum voru innan við 100 þúsund krónur til skiptanna fyrir hvern og einn en ef jafnt væri látið yfir alla viðskiptavini íslensku bankanna ganga, væru kannski til 20 þúsund krónur á kjaft.

Allir tryggðir nema Útlendingar

Íslensk stjórnvöld ákváðu hins vegar á fyrstu dögum hrunsins að ALLAR innstæður væru tryggðar í íslenskum bönkum, 100%. Enda má færa líkur að því að það hefði ekki verið gert, hefðu ekki í mesta falli safnast saman átta þúsund manns í búsáhaldabyltingunni á Austurvelli heldur 80 til tvö hundruð þúsund manns og Alþingishúsið, Stjórnarráðið og Seðlabankinn væru rjúkandi rústir einar.

En þetta með ALLAR innstæður í íslenskum bönkum var ekki alveg rétt. Það átti að tryggja ALLAR innstæður viðskiptavina Landsbankans í Austurstræti, á Selfossi og Ísafirði, en ekki viðskiptavina bankans í Lundúnum, Manchester, Amsterdam og Hag. Það voru allt öðruvísi viðskiptavinir. Þeir voru nefninlega Útlendingar, sem að vísu höfðu verið svo vitlausir að treysta á íslenskan banka, íslenska efnahagsundrið sem enginn Útlendingur skildi hvort eð var.

Hér ber að hafa í huga að Landsbankinn var sér á báti með sína Icesave reikninga. Reikningar hinna bankanna í útlöndum voru í dótturfélögum sem nutu tryggingar sjóða annarra landa, skattborgara annarra landa, en Landsbankinn lagði bara fram hlut sinn í 16 milljörðum Tryggingasjóðs innstæðueigenda á Íslandi til tryggingar á sparifé hinna heimsku Útlendinga. Allt með blessun og sofandahætti íslenskra stjórnvalda.

Þegar ríkið tók svo yfir alla bankana, tók það yfir bæði eignir og skuldbindingar þeirra.
En þegar bráð hafði af brennuvörgunum þar sem þeir sátu rassskelltir með endurnýjaða forystu í stjórnarandstöðu fannst þeim allt í einu ótækt að breskir og hollenskir innstæðueigendur fengju nokkuð umfram það sem Tryggingasjóður innstæðueigenda gæti staðið undir, á sama tíma og íslenskir viðskiptavinir Landsbankans voru öryggir með ALLAR sínar innstæður.

Þeir voru ekki einu sinni til í að gangast við 20 þúsund evra lágmarkstryggingu samkvæmt reglum Evrópusambandsins, enda voru þær reglur bara “gallaðar reglur Útlendinga.” Eftir að hafa brennt allar brýr að baki sér voru brennuvargarnir líka til í að troða mannorð Íslendinga á alþjóðavettvangi í svaðið, allt í nafni íslenskrar þjóðrembu og til þess að draga fjöður yfir synduga fortíð sína.

Sjálfstæðir Íslendingar

Og þess er krafist af brennuvörgunum að allir klappi með og séu stoltir af því að vera Íslendingar. Vera stoltir yfir því að hafa farið ránshendi um útlend héruð og segja svo bara bölvuðu pakkinu að steinhalda kjafti. Við erum jú Íslendingar, sjálfstæð þjóð og höfum  ekkert við Útlönd og Útlendinga að gera. Við höfum tórt hér í ellefu hundruð ár og þurfum enga Útlendinga til að segja okkur fyrir verkum.


Og brennuvargarnir eru farnir að lauma því inn hjá þjóðinni að við þurfum ekkert á lánum frá Útlendingum að halda yfirleitt. Við getum bara afskrifað allt sullið og látið eins og ekkert hafi gerst og selt fisk og lopapeysur til Útlanda og haft það helvíti fínt. Svo getum við líka fengið Útlendinga til að fjárfesta á Íslandi, vegna þess að mannorð okkar er svo gott og bara reddað þessu sjálfir eins og venjulega í ellefu hundruð ár.

Það er grátbroslegt að þeir sem telja sig vera handhafa hreinnar og ómengaðrar vinstristefnu í landinu, flokksbrot í Vinstri grænum, ásamt heyhausunum baklandslausu  Hreyfingunni taki að fullum krafti þátt í klappliði brennuvarganna. Þá er holt að rifja upp að í efnahagslega upplausnarástandinu í Þýskalandi frá 1918 til 1933 gátu sósíaldemókratar og kommúnistar ekki komið sér saman um að mynda stjórn í landinu. Moskva bannaði meira að segja kommúnistum að vinna með stéttasvikurunum sósíaldemókrötum. Allt var betra en þeir.

Hver stjórnarkreppan tók við af annarri í Þýskalandi þar til þjóðin var orðin svo buguð af atvinnuleysi, óðaverðbólgu og örvinglan að hún fór að hlusta eftir og kaus yfir sig í lýðræðislegum kosningum árið 1933 boðskap Þjóðernis- sósíalista, nasista, sem boðaði einfaldar lausnir á öllum vanda þjóðarinnar og öskraði alla aðra flokka niður í kjallara. Óvinurinn var bara einn: Gyðingar og alþjóðlegt samsæri þeirra. Evrópusambandið og alþjóðlegt samsæri þess, eða hvað?

Á ögurstundu

Hvort Ísland fetar sömu braut og hin ólánssama þýska þjóð gerði á millistríðsárunum er á ábyrgð þeirra sem fara fyrir þeim flokkum sem mynda stjórn og stjórnarandstöðu. Það þarf sterk bein til að taka þær erfiðu og sársaukafullu ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka til að vinna þjóðina út úr þeim hrikalegu ógöngum sem óheft frjálshyggjutilraun Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna leiddi þjóðina út í.

Formenn þessara flokka stilltu Íslendingum upp í innrásarliði Bandaríkjamanna og Breta í Írak án þess að spyrja kóng eða prest. Nú ætla þeir að leið þjóðina út í stríð við Breta og Hollendinga og jafnvel Evrópuþjóðirnar allar ef ekki allan heiminn.

Allt til að fela það sem í raun og veru gerðist. Endurtaka bara nógu oft að allt sé Útlöndum að kenna, því fræðin og sagan sýna að ef lygin er endurtekin nógu oft verður hún að allsherjar sannleika, sem að lokum mun að vísu sennilega leiða þjóðina í glötun. En hvað með það? Þá hafa allir gleymt hvar þetta byrjaði allt saman og upprunalegu brennuvargarnir hafa yfirgefið sviðið og erfingjar þeirra tekið við kyndlinum.

Það er komið að ögurstundu í íslenska öngþveitinu. Hvernig haldið er á spilunum nú getur ráðið því hvort þjóðin vinnur sig út úr kreppunni á nokkrum árum, eða hvort hún leiðir yfir sig áratuga hremmingar, skömm og einangrun á alþjóðavettvangi.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment