Monday, December 13, 2010

Forvitnileg staða

Þetta segir Lee C. Bucheit formaður Icesave samninganefndar Íslands í helgarblaði Fréttablaðsins:

Til eru þeir sem telja að aldrei hefði átt að semja um Icesave, heldur útkljá málið fyrir dómstólum. Buchheit kveðst ekki sérfróður um Evrópulöggjöf en bendir þó á hversu mjög lögfræðingar virðist skipast í fylkingar í vangaveltum um það mál.

„Í mínum huga voru þetta aðstæður sem kölluðu á samninga en ekki dómsmál. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú fyrsta er að dómsmál geta tapast og tap í þessu máli hefði skelfilegar afleiðingar. Mótaðlinn gæti þá kallað eftir innheimtu allrar upphæðarinnar í einu og jafnvel haldið því fram að endurgreiðslan ætti ekki einungis að ná til lágmarkstryggingar innstæðna, heldur allra innstæðna." Í öðru lagi segir hann hliðartjón í því falið að hafa Icesave-deiluna hangandi óleysta yfir höfði þjóðarinnar.


„Við værum þá með opið sár í samskiptum þjóðanna þriggja um lengri tíma. Það er alltaf erfitt að sýna fram á hversu mikið tjón gæti hlotist af því, en mín tilfinning er að það yrði verulegt. Rétt eins og það er tilfinning mín að samþykki Alþingi núna gerðan samning þá fáist af því áþreifanlegur ávinningur fyrir landið, sem núna er erfitt að sjá fyrir." Sem mögulegan ábata nefnir Buchheit þó áhrif af diplómatískum stuðningi í öðrum verkefnum stjórnvalda og mögulega aukningu í beinni erlendri fjárfestingu. „Það bíða fjölmargir eftir því að sjá hvort ekki fáist viðunandi niður­staða í þessu máli," segir hann og kveðst ekki sjá skynsemina í því að fara með málið í þessum búningi og umgjörð fyrir dómstóla. (Fréttablaðið 11. desember 2010)


Stjórnarandstaðan var mjög hlynt því að Buchheit yrði ráðinn formaður samninganefndarinnar á sínum tíma og fékk að auki sérlegan fulltrúa sinn, Lárus Blöndal, inn í nefndina. Nú þegar nýr og betri samningur liggur fyrir er margt sem bendir til að stjórnarandstaðan sé að leita sér að leið til að vera á móti samningnum. Það kemur ekki svo mikið á óvart þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins á í hlut og hans helstu stuðningsmenn. Hann hefur aldrei viljað NEINN samning og hefur byggt allt sitt pólitíska líf á þeirri afstöðu.

Það er hins vegar áhyggjuefni að fylgjast með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Nú fær hann enn eitt tækifærið til að sýna að honum sé ekki fjarstýrt af formanni skrímsladeildarinnar á Hádegismóuum og spurning hvort hann stenst prófið og verður þar með alvöru leiðtogi, eða hvort hann lippast niður eins og fyrri daginn.

Byrjunin lofaði góðu. Bjarni sagði samninginn betri en þann fyrri en hann þyrfti tíma til að meta hann. Nokkrum símtölum frá Hádegismóra síðar segir Bjarni ríkisstjórnina verða að standa eina í lappirnar í málinu. Hún geti ekki vænst suðnings frá Sjálfstæðismönnum. Málið snýst sem sagt ekki lengur um þjóðarhag, heldur flokkshag. Og Hádegismóri sér flokkshaginn í því einu að þessi ríkisstjórn fari frá, hver sem kostnaður þjóðarinnar verði. Skíítt með það þótt allt fari í háaloft að nýju vegna Icesave og þjóðin tapi hugsanlega þessu stórmáli fyrir alþjóðlegum dómstóli. Mestu skiptir að stjórnin fari frá og þá er ekkert verð of hátt.

Þá er líka spurning hvað forsetinn gerir. Hann hefur eins síns liðs breytt íslenskri stjórnskipan og mun sjálfsagt láta til sín taka í þessu máli áfram, með sinn persónulega hag að leiðarljósi og sinn þátt í stjórnmálasögu landsins.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað þessir aðilar ásamt óróleikadeild Vinstri grænna gera næstu dagana og vikurnar. Eins og staðan er nú eru töluverðar líkur á að allt falli í gömlu skotgrafirnar og ríkisstjórnin verði farin frá innan skamms, enda er óróleikadeildin líka með fjárlögin í gíslingu. Þá er bara um tvennt að velja: Forsetinn finnur rök fyrir því að skipa utanþingsstjórn til að skrifa sig enn betur á spjöld sögunnar sjálfs sín vegna, eða það verður kosið. Í þeim kosningum eru allar líkur á að gamalkunn stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks komist aftur til valda og þá hefur þjóðin loksins fengið það sem hún á skilið miðað við hegðun hennar eftir hrun.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment