Friday, December 17, 2010

Ríkisstjórnin í raun fallin

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir er í raun fallin eftir að þrír þingmenn Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðslu fjárlaga. Það er engum greiði gerður með því að láta það sem eftir hangir af stjórninni engjast áfram. Með hjásetu Lilju Mósesdóttur, Atla Gíslasonar og Ásmundar Einars Daðasonar hefur ríkisstjórnin 32 þingmenn, sem er minnsti meirihluti sem hægt er að hafa á Alþingi.

Þá verður að hafa í huga að óróleikaþingmaðurinn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir er í tímabundnu leyfi frá þingstörfum en birtist væntanlega í þingflokknum von bráðar. Fyrir hana situr í varamannssæti Ólafur Þór Gunnarsson sem er einlægur stuðningsmaður Steingríms J. Sigfússonar formanns og frjálslyndur maður á flestum sviðum. Einstefnukonan Guðfríður Lilja hefur aftur á móti sýnt, að henni er nokk sama um Steingrím, stjórnarmeirihlutann og markmið hans og ef hún hefði setið á þingi í gær, hefðu fjórir en ekki þrír þingmenn setið hjá. Þar með hefði ríkisstjórnin verið búin að vera.

Það er líka öllum ljóst að höfuðpaur órólegu deildarinnar situr glottandi hjá yfir þessum óförum formannsins og fjármálaráðherrans sem hann kann litlar þakkir og vill velta úr formannsstóli. Ögmundur greiddi fjárlögunum eingöngu atkvæði vegna þess að ef ráðherra hefði setið hjá, hefði verið sjálfhætt. Jóhanna hefði farið beint á Bessastaði til hins lýðræðislega kjörna einvalds til að segja af sér.

Ríkisstjórnin er fallin.  Nú veltur allt á einvaldinum á Bessastöðum - tekst honum að hamra saman meirihluta stjórnarandstöðunnar með stuðningi órólegu deildarinnar, eða verður forsetanum að ósk sinni um að skipa utanþingsstjórn til að marka sig enn betur í sjálfsævisögu sína á Bessastöðum? Eðlilegast væri aftur á móti að rjúfa þing og boða til kosninga.

Þær kosningar munu snúast um lausn Icesave málsins og aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið. Það yrðu afdrifaríkustu kosningar lýðveldisins - þar sem þjóðin fengi í fyrsta skipti frá stofnun lýðveldisins að velja um einangrun frá umheiminum eða þátttöku í alþjóðasamfélagi siðaðra vestrænna þjóða.

Garðar Hólm

Monday, December 13, 2010

Forvitnileg staða

Þetta segir Lee C. Bucheit formaður Icesave samninganefndar Íslands í helgarblaði Fréttablaðsins:

Til eru þeir sem telja að aldrei hefði átt að semja um Icesave, heldur útkljá málið fyrir dómstólum. Buchheit kveðst ekki sérfróður um Evrópulöggjöf en bendir þó á hversu mjög lögfræðingar virðist skipast í fylkingar í vangaveltum um það mál.

„Í mínum huga voru þetta aðstæður sem kölluðu á samninga en ekki dómsmál. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú fyrsta er að dómsmál geta tapast og tap í þessu máli hefði skelfilegar afleiðingar. Mótaðlinn gæti þá kallað eftir innheimtu allrar upphæðarinnar í einu og jafnvel haldið því fram að endurgreiðslan ætti ekki einungis að ná til lágmarkstryggingar innstæðna, heldur allra innstæðna." Í öðru lagi segir hann hliðartjón í því falið að hafa Icesave-deiluna hangandi óleysta yfir höfði þjóðarinnar.


„Við værum þá með opið sár í samskiptum þjóðanna þriggja um lengri tíma. Það er alltaf erfitt að sýna fram á hversu mikið tjón gæti hlotist af því, en mín tilfinning er að það yrði verulegt. Rétt eins og það er tilfinning mín að samþykki Alþingi núna gerðan samning þá fáist af því áþreifanlegur ávinningur fyrir landið, sem núna er erfitt að sjá fyrir." Sem mögulegan ábata nefnir Buchheit þó áhrif af diplómatískum stuðningi í öðrum verkefnum stjórnvalda og mögulega aukningu í beinni erlendri fjárfestingu. „Það bíða fjölmargir eftir því að sjá hvort ekki fáist viðunandi niður­staða í þessu máli," segir hann og kveðst ekki sjá skynsemina í því að fara með málið í þessum búningi og umgjörð fyrir dómstóla. (Fréttablaðið 11. desember 2010)


Stjórnarandstaðan var mjög hlynt því að Buchheit yrði ráðinn formaður samninganefndarinnar á sínum tíma og fékk að auki sérlegan fulltrúa sinn, Lárus Blöndal, inn í nefndina. Nú þegar nýr og betri samningur liggur fyrir er margt sem bendir til að stjórnarandstaðan sé að leita sér að leið til að vera á móti samningnum. Það kemur ekki svo mikið á óvart þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins á í hlut og hans helstu stuðningsmenn. Hann hefur aldrei viljað NEINN samning og hefur byggt allt sitt pólitíska líf á þeirri afstöðu.

Það er hins vegar áhyggjuefni að fylgjast með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins. Nú fær hann enn eitt tækifærið til að sýna að honum sé ekki fjarstýrt af formanni skrímsladeildarinnar á Hádegismóuum og spurning hvort hann stenst prófið og verður þar með alvöru leiðtogi, eða hvort hann lippast niður eins og fyrri daginn.

Byrjunin lofaði góðu. Bjarni sagði samninginn betri en þann fyrri en hann þyrfti tíma til að meta hann. Nokkrum símtölum frá Hádegismóra síðar segir Bjarni ríkisstjórnina verða að standa eina í lappirnar í málinu. Hún geti ekki vænst suðnings frá Sjálfstæðismönnum. Málið snýst sem sagt ekki lengur um þjóðarhag, heldur flokkshag. Og Hádegismóri sér flokkshaginn í því einu að þessi ríkisstjórn fari frá, hver sem kostnaður þjóðarinnar verði. Skíítt með það þótt allt fari í háaloft að nýju vegna Icesave og þjóðin tapi hugsanlega þessu stórmáli fyrir alþjóðlegum dómstóli. Mestu skiptir að stjórnin fari frá og þá er ekkert verð of hátt.

Þá er líka spurning hvað forsetinn gerir. Hann hefur eins síns liðs breytt íslenskri stjórnskipan og mun sjálfsagt láta til sín taka í þessu máli áfram, með sinn persónulega hag að leiðarljósi og sinn þátt í stjórnmálasögu landsins.

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað þessir aðilar ásamt óróleikadeild Vinstri grænna gera næstu dagana og vikurnar. Eins og staðan er nú eru töluverðar líkur á að allt falli í gömlu skotgrafirnar og ríkisstjórnin verði farin frá innan skamms, enda er óróleikadeildin líka með fjárlögin í gíslingu. Þá er bara um tvennt að velja: Forsetinn finnur rök fyrir því að skipa utanþingsstjórn til að skrifa sig enn betur á spjöld sögunnar sjálfs sín vegna, eða það verður kosið. Í þeim kosningum eru allar líkur á að gamalkunn stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks komist aftur til valda og þá hefur þjóðin loksins fengið það sem hún á skilið miðað við hegðun hennar eftir hrun.

Garðar Hólm

Sunday, December 5, 2010

Allt útlendingum að kenna

(þessi grein birtist áður á vefsvæði Silfur Egils 6. október 2009, en Egill gerði mér þann greiða að birta hana fyrir mig þegar ég hafði ekki uppgötvað bloggið og hafði enga aðra leið til að koma hugrenningum mínum áleiðis. Takk fyrir hjálpina Egill.)

Pólitískar aðstæður á Íslandi í dag eru að mörgu leyti svipaðar og þær voru í Þýskalandi á árunum milli fyrri og seinni heimsstyrjaldarinnar. Þar endaði pólitísk upplausn með því að fasistar komust til valda í lýðræðislegum kosningum, bönnuðu fljótlega aðrar stjórnmálahreyfingar og hófu ofsóknir gegn öllum sem höfðu aðrar skoðanir á lífinu og tilverunni en þeir, en þó sérstaklega gegn einum óvini sem allt var að kenna; gyðingum sem “höfðu með alþjóðlegu samsæri sínu” komið Þýskalandi á kaldan klaka. Algerlega var horft framhjá gengdarlausri útþenslu- og heimsvaldastefnu fyrri ára og árhundruða. Allt var gyðingum að kenna og afleiðingarnar þekkja allir.

Efnahagslegu brennuvargarnir í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum, hugmyndafræðilegir ábyrgðarmenn hrunsins sem einkavinavæddu eignir ríkisins og færðu þær vinum og vandamönnum á spottprís, sem ekki einu sinni hefur verið greiddur nema að hluta, sjá enga sök hjá sjálfum sér en hafa fundið einn og óskoraðan óvin sem allt er að kenna; Útlönd.

Hrun íslensku bankanna, allir erfiðleikar Íslendinga, gífurlegur halli á ríkissjóði og fáheyrð skuldabyrði þjóðarinnar er Útlöndum að kenna. Ef það eru ekki Hollendingar og Bretar, þá er það Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Ef ekkert væri Evrópusambandið þá væri allt í sómanum á Íslandi.

Og það má að hluta til sanns vegar færa vegna þess að með inngöngu Íslands í Evrópska efnahagssvæðið hófst mikið blómaskeið í íslenskum efnahagsmálum. Með þeirri inngöngu varð íslenskt efnahagslíf hluti af 400 milljóna markaði, laut sömu reglum og aðildarríki Evrópusambandsins, hafði sömu réttindi til athafna en einnig sömu skyldur.

Íslenskir fílar í postulínsverslun

Þetta kom Íslendingum til góða og útrásarvíkingarnir svo kölluðu, með einkavinina í hinum nýgefnu bönkum í broddi fylkingar færðu sér þetta í nyt eins og engir aðrir. Þeir höguðu sér eins og fílar í postulínsverslun, ruddust inn í Evrópu sperrtir og montnir og keyptu heimsfrægar eignir í hrönnum út á krít hjá bönkunum sem þeim voru gefnir. Ekkert var keypt fyrir eigið fé, allt var tekið að láni í því trausti að aldrei yrði skortur á ódýru lánsfé og heimurinn myndi aldrei sjá í gegnum þá, að þeir áttu í raun ekki bót fyrir skuldumvafið rassgatið á sér.

Allt gerðist þetta undir dáleiddum augum hugmyndafræðilegra og pólitískra skapara þeirra sem stoltir og glaðir töluðu um íslenska efnahagsundrið eins engum í heiminum hafi áður dottið önnur eins hagfræðikenning í hug. Pólitískir leiðtogar undursins gerðu engar athugasemdir við “stórkostlega gallað regluverk Evrópusambandsins”, eftirlitsstofnanir voru bara til að nafninu til og ef einhver leyfði sér að gera athugasemdir við þórðargleðina og bruðlið voru þeir kveðnir í kútinn og fjármálaráðherrann hrópaði: “Sjáið þið ekki veisluna drengir?”

Þegar hrunadansinn fór að fara úr böndunum og erlendir sérfræðingar og gagnrýnendur fóru að voga sér að efast um innihald og fót undir íslenska undrinu voru þeir hrópaðir niður sem öfundarmenn; Útlendingar sem ekki skildu hinar sér íslensku aðstæður, hið séríslenska undur. Enda vissu þessir menn að Útlendingar höfðu aldrei í ellefu hundruð ára sögu Íslandsbyggðar skilið þessa útvöldu þjóð, þessa fámennu vellesnu herraþjóð.

Spilaborg byggð á ránsfé

Þegar spilaborgin hrundi með braki og brambolti og íslenska undrið reyndist allt vera innihaldslaus bóla byggð á láns –eða ránsfé frá bönkum sem snillingunum höfðu verið gefnir og hugmyndafræðin og sofandahátturinn hafði leitt yfir þjóðina eina mestu ógæfu hennar í þúsund ár, stóðu höfundar spilverksins eins og rassskelltir apar frami fyrir þjóðinni.

En þeir voru fljótir að hrista af sér slenið. Eftir að hafa verið hraktir frá völdum og þjóðin hafði fyrir einhvern misskilning kosið aðra ríkisstjórn, voru þeir fljótir að finna sinn sameiginlega óvin: Útlönd.

Einn aðalhöfundur nútíma áróðurstækni eða propaganda, Jósef Göbbels vissi betur en aðrir að til að höfða til lýðsins var nauðsynlegt að koma sér upp einum óvini. Í óreiðu kreppunnar og upplausnarinnar í Þýskalandi var of flókið fyrir lýðinn að skýra út fjölþættar ástæður hruns Þýskalands eftir fyrra stríð. Það ruglaði fólk bara í ríminu. Óvinurinn var bara einn: Gyðingar og alþjóðlegt samsæri þeirra gagnvart herraþjóðinni.

Þessi tækni, þessi málflutningur dansar nú um varir fulltrúa gömlu helmingaskiptaflokkanna og hluti Vinstri grænna dansar með ásamt heyhausunum í Hreyfingunni. Upphaf og endir allra ógæfu Íslendinga er Útlönd. Óvinurinn mikli er Útlönd og fyrir alla muni verum ekki að tala um fortíðina. Tölum ekki um þá sem kveiktu í, ráðumst á slökkviliðið fyrir fádæma léleg vinnubrögð og kennum svo Útlöndum um allt saman.

Formaður Framsóknarflokksins og pólitísk unglambahjörð hans í þingflokknum hagar sér eins og Framsóknarflokkurinn hafi verið stofnaður á landsþingi í byrjun árs 2008 og hann eigi engan þátt í því hvernig komið er. Hann hefur kastað öllum syndum Framsóknar á bakvið sig. Og forysta og þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala eins og þau hafi verið í stjórnarandstöðu undanfarin 17 ár og aldrei haft neitt með ríkisstjórn, Seðlabanka og bankakerfið yfirleitt að gera.

Brennuvargar í velferðarflokkum

Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur eru allt í einu orðnir hinir mestu velferðarflokkar sem ekkert aumt mega sjá og telja algeran óþarfa að skera niður eða hækka skatta svo ríkissjóður geti staðið undir byrðunum, enda eru engar byrðar, bara óforskammaðar kröfur frá Útlöndum sem skella ber hurðinni á nefið á og standa í fæturna eins og alvöru sjálfstæðir menn með bein í nefinu.

Það er talað eins og Icesave skuldbindingarnar séu upphafið og endirinn á böli íslensku þjóðarinnar. Það er út af Icesave sem vitleysingarnir í ríkisstjórninni ætla að skera niður í velferðarkerfinu og leggja skatta á almenning og fyrirtæki. Icesave sem varð til á þeirra vakt og engar athugasemdir voru gerðar við og ekkert gert til að stoppa.

Ef engar eignir koma á móti Icesave skuldbindingunum verður reikningur Íslands líklega 750 milljarðar króna. En með innheimtu eigna verður reikningurinn líklega nær 300 milljörðum. Skuldir ríkissjóðs eru hins vegar 1.700 milljarðar króna vegna hrunsins og Icesave er ekki inn í þeirri tölu. Breska og hollenska ríkið hafa tekið á sig rúmlega tvö þúsund milljarða vegna Icesave og erlendir kröfuhafar Icesave óviðkomandi, tapa sennilega 6 til 7 þúsund milljörðum á íslenska efnahagsundrinu.

Brennuvörgunum koma þessar staðreyndir ekki við enda vekja þær athygli á þeirra eigin aðgerðum og aðgerðarleysi. Svo eru þetta bara Útlendingar.

Þegar allt fór á hvolf voru skitnir 16 milljarðar króna í Tryggingasjóði innstæðueigenda. Þessi sjóður átti að standa undir öllum innstæðum viðskiptavina íslensku bankanna ef illa færi. Það þýðir að ef greiða átti jafnt til allra íslenskra viðskiptavina bankanna úr sjóðnum voru innan við 100 þúsund krónur til skiptanna fyrir hvern og einn en ef jafnt væri látið yfir alla viðskiptavini íslensku bankanna ganga, væru kannski til 20 þúsund krónur á kjaft.

Allir tryggðir nema Útlendingar

Íslensk stjórnvöld ákváðu hins vegar á fyrstu dögum hrunsins að ALLAR innstæður væru tryggðar í íslenskum bönkum, 100%. Enda má færa líkur að því að það hefði ekki verið gert, hefðu ekki í mesta falli safnast saman átta þúsund manns í búsáhaldabyltingunni á Austurvelli heldur 80 til tvö hundruð þúsund manns og Alþingishúsið, Stjórnarráðið og Seðlabankinn væru rjúkandi rústir einar.

En þetta með ALLAR innstæður í íslenskum bönkum var ekki alveg rétt. Það átti að tryggja ALLAR innstæður viðskiptavina Landsbankans í Austurstræti, á Selfossi og Ísafirði, en ekki viðskiptavina bankans í Lundúnum, Manchester, Amsterdam og Hag. Það voru allt öðruvísi viðskiptavinir. Þeir voru nefninlega Útlendingar, sem að vísu höfðu verið svo vitlausir að treysta á íslenskan banka, íslenska efnahagsundrið sem enginn Útlendingur skildi hvort eð var.

Hér ber að hafa í huga að Landsbankinn var sér á báti með sína Icesave reikninga. Reikningar hinna bankanna í útlöndum voru í dótturfélögum sem nutu tryggingar sjóða annarra landa, skattborgara annarra landa, en Landsbankinn lagði bara fram hlut sinn í 16 milljörðum Tryggingasjóðs innstæðueigenda á Íslandi til tryggingar á sparifé hinna heimsku Útlendinga. Allt með blessun og sofandahætti íslenskra stjórnvalda.

Þegar ríkið tók svo yfir alla bankana, tók það yfir bæði eignir og skuldbindingar þeirra.
En þegar bráð hafði af brennuvörgunum þar sem þeir sátu rassskelltir með endurnýjaða forystu í stjórnarandstöðu fannst þeim allt í einu ótækt að breskir og hollenskir innstæðueigendur fengju nokkuð umfram það sem Tryggingasjóður innstæðueigenda gæti staðið undir, á sama tíma og íslenskir viðskiptavinir Landsbankans voru öryggir með ALLAR sínar innstæður.

Þeir voru ekki einu sinni til í að gangast við 20 þúsund evra lágmarkstryggingu samkvæmt reglum Evrópusambandsins, enda voru þær reglur bara “gallaðar reglur Útlendinga.” Eftir að hafa brennt allar brýr að baki sér voru brennuvargarnir líka til í að troða mannorð Íslendinga á alþjóðavettvangi í svaðið, allt í nafni íslenskrar þjóðrembu og til þess að draga fjöður yfir synduga fortíð sína.

Sjálfstæðir Íslendingar

Og þess er krafist af brennuvörgunum að allir klappi með og séu stoltir af því að vera Íslendingar. Vera stoltir yfir því að hafa farið ránshendi um útlend héruð og segja svo bara bölvuðu pakkinu að steinhalda kjafti. Við erum jú Íslendingar, sjálfstæð þjóð og höfum  ekkert við Útlönd og Útlendinga að gera. Við höfum tórt hér í ellefu hundruð ár og þurfum enga Útlendinga til að segja okkur fyrir verkum.


Og brennuvargarnir eru farnir að lauma því inn hjá þjóðinni að við þurfum ekkert á lánum frá Útlendingum að halda yfirleitt. Við getum bara afskrifað allt sullið og látið eins og ekkert hafi gerst og selt fisk og lopapeysur til Útlanda og haft það helvíti fínt. Svo getum við líka fengið Útlendinga til að fjárfesta á Íslandi, vegna þess að mannorð okkar er svo gott og bara reddað þessu sjálfir eins og venjulega í ellefu hundruð ár.

Það er grátbroslegt að þeir sem telja sig vera handhafa hreinnar og ómengaðrar vinstristefnu í landinu, flokksbrot í Vinstri grænum, ásamt heyhausunum baklandslausu  Hreyfingunni taki að fullum krafti þátt í klappliði brennuvarganna. Þá er holt að rifja upp að í efnahagslega upplausnarástandinu í Þýskalandi frá 1918 til 1933 gátu sósíaldemókratar og kommúnistar ekki komið sér saman um að mynda stjórn í landinu. Moskva bannaði meira að segja kommúnistum að vinna með stéttasvikurunum sósíaldemókrötum. Allt var betra en þeir.

Hver stjórnarkreppan tók við af annarri í Þýskalandi þar til þjóðin var orðin svo buguð af atvinnuleysi, óðaverðbólgu og örvinglan að hún fór að hlusta eftir og kaus yfir sig í lýðræðislegum kosningum árið 1933 boðskap Þjóðernis- sósíalista, nasista, sem boðaði einfaldar lausnir á öllum vanda þjóðarinnar og öskraði alla aðra flokka niður í kjallara. Óvinurinn var bara einn: Gyðingar og alþjóðlegt samsæri þeirra. Evrópusambandið og alþjóðlegt samsæri þess, eða hvað?

Á ögurstundu

Hvort Ísland fetar sömu braut og hin ólánssama þýska þjóð gerði á millistríðsárunum er á ábyrgð þeirra sem fara fyrir þeim flokkum sem mynda stjórn og stjórnarandstöðu. Það þarf sterk bein til að taka þær erfiðu og sársaukafullu ákvarðanir sem nauðsynlegt er að taka til að vinna þjóðina út úr þeim hrikalegu ógöngum sem óheft frjálshyggjutilraun Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna leiddi þjóðina út í.

Formenn þessara flokka stilltu Íslendingum upp í innrásarliði Bandaríkjamanna og Breta í Írak án þess að spyrja kóng eða prest. Nú ætla þeir að leið þjóðina út í stríð við Breta og Hollendinga og jafnvel Evrópuþjóðirnar allar ef ekki allan heiminn.

Allt til að fela það sem í raun og veru gerðist. Endurtaka bara nógu oft að allt sé Útlöndum að kenna, því fræðin og sagan sýna að ef lygin er endurtekin nógu oft verður hún að allsherjar sannleika, sem að lokum mun að vísu sennilega leiða þjóðina í glötun. En hvað með það? Þá hafa allir gleymt hvar þetta byrjaði allt saman og upprunalegu brennuvargarnir hafa yfirgefið sviðið og erfingjar þeirra tekið við kyndlinum.

Það er komið að ögurstundu í íslenska öngþveitinu. Hvernig haldið er á spilunum nú getur ráðið því hvort þjóðin vinnur sig út úr kreppunni á nokkrum árum, eða hvort hún leiðir yfir sig áratuga hremmingar, skömm og einangrun á alþjóðavettvangi.

Garðar Hólm

Grátlegur misskilningur róttækra vinstrimanna

Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með niðurlægingu þjóðernissósíalista í Vinstri hreyfingunni grænu framboði sem vilja teljast til róttækrar vinstristefnu í evrópumálum. Það er sorglegt að horfa á þennan hóp standa með ofuríhaldinu í liði af fullkomlega blindri og misskilinni þjóðernishyggju. Gleymd er öll stéttarvitund og marxísk fræði sem þessir svo kölluðu róttæklingar þykjast þó hafa að leiðarljósi.

Þegar alræðinu var kastað á öskuhauga sögunnar í Sovétinu virðist sem margir vinstrimenn hafi af skömm kastað frá sér öllu því sem sagan hefur kennt og marxísk sögugreining býður. Heimurinn hefur öldum saman verið á leið til meiri hnattvæðingar og sú leið verður ekki stöðvuð, hvað sem líður rómantískum þönkum þjóðernissinna hægra og vinstramegin í stjórnmálunum. Síðasta efnahagshrun ætti að sýna öllum sem enn höfðu ekki séð hversu alþjóðavæddur kapitalisminn er,  hversu gífurlegum skaða hann getur valdið hinum vinnandi stéttum. Þótt þjóðríkjum hafi fjölgað, hefur þjóðaeiningum og bandalögum fækkað og það er af hinu góða. Í því felst vörn fyrir smáar þjóðir.

Eina svar vinnandi fólks, almennings, er að sameinast með sama hætti og kapitalistarnir og standa saman gegn óhófi og arðráni hinna fáu og ofurríku. Alþjóðleg verkalýðsbarátta, alþjóðleg mannréttindabarátta og alþjóðleg lýðræðisbarátta er eina svarið gegn leyndarhyggju fjármagnsins sem yfirleitt reynir að komast fram hjá lögum, eltir ódýrt vinnuafl, þolir ekki vinnulöggjöf og réttindi vinnandi fólks og svo framvegis.

Meira að segja fyrrverandi efnahagsráðgjafi Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta, og einn höfunda skattalækkunarstefnu hans, hefur séð í hvers konar ógöngur nýfrjálshyggjan er komin. Í hans tíð áttu 5 % ríkustu Bandaríkjamanna um 20 billjarða dollara, en í dag, eftir hrun, á þessi sami hópur 40 billjarða dollara. Hrunið var ekkert annað en enn eitt rán þessa hóps sem almenningi er svo ætlað að borga. Rán sem framið er með hlutafjárbraski, uppbroti fyrirtækja og krosssölu á þeim til að búa til ímyndað fjármagn. Sundraður almenningur með landamæri ríkja sem veggi í kringum um sig, má sín lítils í mótstöðunni gegn þessu liði. Eina svarið er samstaða og samvinna.

Bóndinn á heiðinni

Evrópusambandið er ekki endanlegt svar við öllum vanda. En bandalagið byggir á samkomulagi aðildarríkjanna um að standa vörð um frið, lýðræðið og samræmingu reglna á grunnsviðum samfélagsins, hvað varðar réttindi launafólks, hvað varðar umhverfismál, vöruvernd og svo framvegis.

Það er nánast ömurlegt að lesa eftirfarandi texta hafðan eftir yngsta þingmanni Vinstri grænna og bónda að norðan á MBL þegar hann tiltekur gallana við Evrópusambandið:
Hann tekur sem dæmi, máli sínu til stuðnings, að ESB geri þá kröfu að íslensk stjórnvöld setji upp greiðslustofnun í landbúnaði. Sú stofnun hafi umsjón með öllu styrkjakerfinu eins og það sé uppbyggt í Evrópusambandinu. Það sé hins vegar byggt upp með öðrum hætti en hér á landi.  (mbl. 20. nóv 2010).

Þingmanninum unga og bóndanum finnst s.s. miklu betra að Bændasamtökin íslensku fái að halda áfram að deila út skattfé almennings eins og samtökunum sýnist. Því stærsti hluti stjórnsýslunnar í landbúnaði er í höndum Bændasamtakanna. Landbúnaðarráðuneytið er nánast eins og útibú frá þessum samtökum og því ekki skrýtið að þeir sem fara þar með völdin vilji halda þeim.

Það sem þingmaðurinn “róttæki” og bóndinn óttast er að farið verði að kröfum Evrópusambandsins að öll styrkjamál í landbúnaði verði færð í opinbera stofnun sem HEYRI UNDIR LANDBÚNAÐARRÁÐUNEYTIÐ. Völdin verði s.s. tekin af Bændasamtökunum. Þessi “róttæki” þingmaður hefur engan áhuga á lægra matvöruverði til almennings, enda er almenningur ekki umbjóðendur hans, heldur þröng klíka bænda sem vill fá að skammta sér skattfé eftir eigin höfði og fá að ráða verðlagi á landbúnaðarvörum án afskipta frjálsra viðskipta almennings.

Í huga hins róttæka þingmanns er það þjóðinni hættulegt að almenningur fái að velja á milli danskra kjúklinga og íslenskra, franskra osta og íslenskra. Þá gleymir hann því alveg að þegar tollamúrar voru lækkaðir eða afnumdir á grænmeti, BATNAÐI hagur íslenskra grænmetisbænda, sem vegna samkeppni fóru í vöruþróun og hafa sjaldan haft það betra.

Þjóðernissósíalistar og aðrir andstæðingar evrópusambandsaðildar benda stundum á að þegar Finnar gerðust aðilar að bandalaginu hafi 8.000 bændur þurft að bregða búi. Þetta er rétt en algjör meirihluti þeirra bænda voru með 10 til 12 gripi á búum sínum, eða algerir hobbíbændur sem fyrir inngöngu fengu styrki frá finnska ríkinu en misstu þá við aðildina. Evrópusambandið gerir nefnilega þá kröfu að þeir sem fást við búskap séu að því í alvöru. Sambandið telur ekki eðlilegt að það teljist atvinnugrein að halda úti tólf til tuttugu rollum.
Ásmundur Einar Daðason, yngsti þingmaður vinstri róttæka flokksins á Íslandi er óþægilega líkur bóndanum í Sumarhúsum, sem í sjálfstæðisrembingi sínum og forheimsku missti að lokum allt sem hann elskaði. Það eru ömurleg örlög ungs “róttæklings.”

Í bandalagi við sérhagsmunina

Það er einkennilegt að félagar í flokki sem kennir sig við vinstri róttækni vilji stilla sér upp með bændaíhaldi og þeim stóreignamönnum sem hafa hagsmuna að gæta með því að komið verði í veg fyrir samkeppni í eignarhaldi á íslenskum útgerðum. Fimmtíu til sjötíu einstaklingar eiga allar fiskveiðiheimildir við Ísland og vilja halda því áfram án afskipta annarra. Þeir óttast ekki að miðstjórnarvaldið í Brussel taki allar ákvarðanir um hvað megi veiða og hvað ekki á Íslandsmiðum og að skipum erlendra þjóða verði hleypt inn í fiskveiðilögsögu Íslands, vegna þess að þeir vita að það verður ekki þannig. Nei, það sem þeir óttast er að kapitalistar í evrópusambandsríkjunum geti keypt og átt að fullu íslensk útgerðarfyrirtæki. Íslenskir kapitalistar treysta sér ekki í samkeppni við aðra kapitalista, þótt þeir sjálfir eigi 100% í sjávarútvegsfyrirtækjum í ríkjum Evrópusambandsins og jafnvel stóran hluta af fiskveiðiheimildum sambandsins.

Róttækir vinstrimenn í Vinstri grænum vilja sem sagt verja þessa hagsmuni í nafni þjóðernishyggju, að ekki megi beygja sig undir yfirþjóðlegt vald, ekki megi taka upp löggjöf í mannréttindamálum og fleiri sviðum, sem yfirleitt er miklu róttækari en íslensk löggjöf, t.d. hvað varðar sjálfstæði dómstóla og almenna virðingu fyrir réttarríkinu.

Í alþjóðlegum samskiptum afsala þjóðir sér alltaf einhverju af valdi sínu. Með því að gangast undir samræmdar reglur og mannasiði, afsala einstakar þjóðir sér réttinum til að haga þeim málum af eigin geðþótta. Það þýðir t.d. ekkert fyrir aðildarríki í Evrópusambandinu að ætla sér að taka upp dauðarefsingar, það er ekki viðurkennt innan ESB að brjóta megi rétt á samkynhneigðum, það er ekki löglegt að brjóta almenna vinnulöggjöf á þegnum sambandsins, það er ekki leyfilegt að framleiða matvöru við sóðalegar aðstæður og vörur eru staðlaðar þannig að framleiðendur í öllum aðildarríkjunum hafi jafna stöðu í samkeppninni osfv. Hvað af þessu kemur almenningi illa?

Hagur norðurslóða

Málefni norðurslóða er eitt brýnasta mál framtíðarinnar. Það þarf að setja alþjóðleg lög um svæðið og það þarf að efla eftirlit á því. Ísland hefur enga burði til að gæta hagsmuna sinna á þessu svæði eitt og óstutt. Evrópusambandið leggur áherslu á umhverfisvernd þegar kemur að norðurslóðum. Með aðild að sambandinu fengi Ísland mikilvægan stuðning frá því til eftirlits og til að berjast fyrir því að þjóðir eins og Bandaríkin og Rússland sættist á samræmd alþjóðleg lög um norðurslóðir. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina.

Þegar horft er til hagsmuna almennings, hinna vinnandi stétta á Íslandi er kristaltært að engin ein aðgerð er henni meira í hag en aðild að Evrópusambandinu. Þetta er augljóst öllum sem nenna að kynna sér eðli og uppbyggingu Evrópusambandsins. Sú grýla sem máluð er á vegginn af fámennum sérhagsmunahópum í landbúnaði og sjávarútvegi á sér enga stoð í raunveruleikanum. Hún er moðreykur, ryk sem viljandi er kastað í augu vinnandi fólks til að villa því sýn, til að hræða það með þjóðlögum til fylgislags við hagsmuni sem í raun eru þeim algerlega andstæðir. Það eru grátleg örlög róttækra vinstrimanna að standa með fámennum hagsmunahópum auðvaldsins gegn hagsmunum almennings. Sagan á eftir að dæma slíka vinstrimenn hart.

Staða tungumálsins eflist

Íslendingar munu halda áfram að borða hrútspunga, syngja ættjarðarlög, fara á þjóðhátíð í Eyjum, lesa Laxness, kveða rímur, elska Þingvelli, Ásbyrgi, Jón Sigurðsson og hálendið eftir aðild að Evrópusambandinu. Í sambandinu njóta öll tungumál jafnræðis. Það má færa fyrir því rök að ekkert myndi styrkja íslenska tungu eins mikið og aðild að Evrópusambandinu. Öll skjöl sambandsins yrðu þýdd á íslensku, en í dag eru þessi skjöl ekki þýdd þótt Íslendingar séu aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og hafi í raun innleitt um 70 prósent af allri löggjöf sambandsins.

Með aðild sætu Íslendingar til borðs með öðrum ráðamönnum í Evrópusambandinu í leiðtogaráðinu og hefðu sömu áhrif á gang mála og leiðtogar annarra ríkja. Þeir ættu þingmenn á Evrópuþinginu og fulltrúa í framkvæmdastjórn sambandsins. Á öllum þessum stöðum gætu íslenskir fulltrúar talað íslensku og túlkar myndu túlka mál þeirra samstundis yfir á önnur Evrópumál. Nú túlkar enginn íslensku hjá sambandinu, þannig að málhaltir íslenskir stjórnmála- og embættismenn á erlendum tungum, eru ill skiljanlegir á fundum með fulltrúum ESB.

Á annað hundrað Íslendingar sem kunna önnur tungumál fengju vinnu við að túlka og þýða. Aðgangur Íslendinga að evrópskum skólum, menningarstofnunum, vísindastofnunum og vinnumarkaði myndi styrkjast til muna. Hvernig getur þetta skaðað íslenska hagsmuni? Hvernig getur þetta skaðað hinar vinnandi stéttir á Íslandi? Hvernig geta róttækir alþjóðasinnaðir vinstrimenn haldið því fram að aðild að sambandinu muni svipta Íslendinga sjálfstæðinu og ræna almenning í landinu lífshamingjunni? Hvernig getur vinstrimaður sem samkvæmt skilgreiningu ætti að líta til róttækra félagsvísinda í greiningum sínum fengið það út að 2 + 2 sé 1?

Sögulegur misskilningur

Sem betur fer er fólk innan Vinstri grænna og í hópi kjósenda þeirra sem gerir sér grein fyrir þessu. Þessi hluti hreyfingarinnar verður að beita sér og koma félögum sínum í skilning um að þjóðernisandstaða þeirra sé byggð á meiriháttar sögulegum og fræðilegum misskilningi. Landbúnaður hefur ekki lagst af í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Þvert á móti er stundaður öflugur landbúnaður í öllum aðildarríkjunum. Hann hefur hins vegar þurft að þróast og aðlaga sig að samræmdum reglum, til að gæta hreinlætis, hollustu, umhverfis og samkeppnisstöðu. Það getur ekki talist hættulegt. Það getur heldur ekki talist hættulegt að Spánverji eða Þjóðverji eigi íslenskt útgerðarfyrirtæki, frekar en að Íslendingar eigi stórarn hluta aflaheimilda í Evrópusambandsríkjunum og fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi þar. Það sem mestu skiptir er að yfirráð Íslenska ríkisins yfir 200 mílna auðlindarlögsögunni og öðrum auðlindum landsins sé viðurkennd. Að íslenskur fiskur sé unninn á Íslandi, fiskveiðar lúti umhverfisverndarsjónarmiðum og fiskur af Íslandsmiðum teljist umhverfisvæn og holl vara í fremsta gæðaflokki.

Um 60 til 70 prósent af öllum útflutningi Íslendinga fer til Evrópusambandsins. Vegna þess að Íslendingar vildu ekki fulla aðild og gerðust þess í stað aðilar að EES og vildu halda fiski og landbúnaði fyrir utan samninga, er lagður tollur á fullunnar fiskafurðir frá Íslandi inn í sambandið. Þess vegna vinna þúsundir íbúa Evrópu við það að fullvinna íslenskra fiskafurðir. Með aðild að sambandinu yrðu þessir tollar lagðir niður og engin ástæða væri til að fullvinna þessar vörur ekki á Íslandi. Með því gætu þúsundir starfa flust til landsins. Fleiri störf en eru í öllum álverum landsins og útflutningstekjur af fiskafurðum myndu margfaldast.  Hvernig getur það komið niður á hag hinna vinnandi stétta á Íslandi? Hvernig vinnur það gegn hagsmunum almennings á Íslandi?

Eftir að gömlu austantjaldslöndin sem nú eru aðilar að sambandinu tóku upp reglur ESB í framleiðslu landbúnaðarvara, hefur útflutningur þeirra til evrópusambandsríkjanna á landbúnaðarvörum margfaldast. Íslenskur landbúnaður er hátæknivæddur og nútímalegur. Hann þarf því ekki að aðlaga sig að reglum sambandsins í sama mæli og landbúnaður í gömlu austur Evrópu. Það lúta öll rök að því að útflutningur á íslenskum landbúnaðarafurðum muni margfaldast þegar tollmúrar hverfa. Hér eru unnar hágæðavörur sem eiga full erindi á evrópumarkað og það er engin ástæða til annars en ætla að þær geti náð þar vinsældum. Hagur bænda getur því batnað ef bændur kæra sig um og vilja aðlaga sig að nýjum 500 milljón manna markaði sem stæði þeim opinn á jafnréttisgrundvelli. Hvernig getur það skaðað hag íslensks almennings?

Ónýtur gjaldmiðill

Gjaldmiðill þjóðarinnar er ónýtur. Það vita það allir. Hins vegar hefur fámennur hópur auðmanna hag af því að halda í krónuna. Þeir segja að krónan hafi í för með sér jákvæðan sveigjanleika. Undanfarin 70 ár hefur það þýtt á mannamáli að þeir geti aukið verðmæti útflutnings síns með því að gengi krónunnar sé fellt og almenningur látinn borga brúasann með hækkun verðlags og verðtryggðra lána.

Við samningaborðið ættu Íslendingar að fara fram á að strax við aðild verði fundið viðunandi verðlag á krónunni og hún fasttengd evrunni þar til við höfum uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins fyrir upptöku evrunnar. Með þessu kæmust vextir á slóðir siðaðra þjóða, hinar vinnandi stéttir gætu gert raunhæfar áætlanir um fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og í öðrum fjárfestingum og stöðugleiki kæmist á efnahagsmálin með skjóli af Seðlabanka Evrópu. Hvernig getur það skaðað hagsmuni almennings, hinna vinnandi stétta í landinu?

Ættjarðarást en ekki þjóðremba

Hvar í flokki sem Íslendingar standa verða þeir að leggja gamaldags þjóðernisstefnu og rembu á hilluna og horfa fyrst og fremst á hagsmuni heildarinnar í landinu þegar ákveðið er hvort Íslendingar gerist aðilar að Evrópusambandinu. Það þýðir ekki að íbúar landsins verði að láta af  ættjarðarást sinni og virðingu fyrir öllu því góða sem íslensk menning og saga hefur að geyma. Þvert á móti.

Íslendingar hafa vegna sögu sinnar, menningar og reynslu af því að halda uppi samfélagi hér norður í hafi í rúm 1.100 ár mikið fram að færa við sameiginlegt borð Evrópuþjóða. Þar þurfa þeir ekki að skammast sín. Við eigum vísindamenn á heimsmælikvarða á mörgum sviðum, svo sem eins og í nýtingu umhverfisvænnar orku. Menning okkar og saga er ekkert síðri en menning og saga hinna 27 frjálsu og sjálfstæðu þjóðanna sem mynda Evrópusambandið.

Innan Evrópusambandsins myndu Íslendingar án vafa skipa sér til borðs með öðrum norrænum þjóðum sem eiga með sér sterk vináttu- og bræðrabönd. Innganga Íslands myndi styrkja norrænar áherslur innan Evrópusambandsins og þar með styrkja sambandið og þjóðirnar sjálfar.

Við eigum ekki að ala á ótta og fordómum við Evrópusambandið. Hagur þjóðarinnar hefur alltaf verið best tryggður þegar Ísland hefur án minnimáttarkenndar og af fullri reisn sest til borðs með fulltrúum annarra þjóða,  látið rödd sína heyrast og tekið þátt í ákvörðunartökuferlinu. Með því að einangra sig í misskilinni þjóðernishyggju er verið að kreppa að hag almennings, hinna vinnandi stétta í landinu og það klæðir róttæka vinstrimenn alveg sérstaklega illa að beita sér fyrir því.

Garðar Hólm