Tuesday, March 22, 2011

Lýðræðislegt ósamráð

Það vekur athygli að hvert flokksfélag Vinstri grænna á fætur öðru í Suðurkjördæmi, kjördæmi Atla Gíslasonar, krefst þess að hann segi af sér þingmennsku og hleypi varamanni að. Í ályktunum flokksfélaganna er Atli gagnrýndur fyrir að hafa ekkert samráð við félaga sína í kjördæminu áður en hann tók þá ákvörðun að segja sig úr þingflokki Vinstri grænna.

Ein af ástæðum þess að Atli sagði skilið við þingflokkinn var að hann vildi bæta stjórnmálamenninguna í landinu, sem ekki hefði breyst frá því fyrir hrun, þrátt fyrir ábendingar rannsóknarnefndar Alþingis. Bæði Atli og Lilja gagnrýndu svo kallað foringjaræði innan Vinstri grænna. En foringi Vinstri grænna í Suðurkjördæmi sá sem sagt enga ástæðu til að hafa samráð við lægri setta félaga sína í kjördæminu og sagði þingflokknum stríð á hendur með Lilju án þess að bera málið upp við stofnanir flokksins í sínu kjördæmi.

Getur tvískinnungurinn verið meiri? Er málið ekki einfaldlega það að Atli og Lilja eru að leiða uppreisn gegn forystu flokksins í þeirri von að fleiri fylgi á eftir og ríkisstjórnin falli til að koma í veg fyrir að viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram.

Það er einkennilegt að mál sem voru í stjórnarsáttmála skuli vera aðalástæða þess að þau Lilja og Atli segi skilið við þingflokkinn. Það var í stjórnarsáttmála að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Það var í stjórnarsáttmála að vinna eftir efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en kalla fram breytingar á áætluninni, sem tókst.

Allt þvaður um aðlögunarviðræður við ESB er út í hött. Að sjálfsögðu krefst viðsemjandi Íslendinga þess að Íslendingar sýni áætlanir um hvernig þjóðin hyggist leiða löggjöf og regluverk ESB í gildi, verði aðildin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forysta ESB veit að ekkert verður að aðild Íslands fyrr en að lokinni samþykkt þjóðarinnar. Atli, Lilja, Ásmundur Einar Daðason og fleiri innan VG hafa hins vegar kosið að ganga í lið með Davíð Oddssyni, Styrmi Gunnarssyni, Kjartani Gunnarssyni og fleiri últra íhaldsmönnum í þeirri herferð að kasta ryki í augu almennings með þvaðri um aðlögunarviðræður.

Öll eiga þau það sameiginlegt að óttast að þjóðin segi já í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna þess að þau vita að miklar líkur eru á að hagstæður samningur náist. Hagstæður fyrir almenning í landinu hvað varðar vöruverð, vexti og almenna viðskiptahætti. En óhagstæður kannski fyrir 50 til 60 einstaklinga sem eiga fiskinn í sjónum við Ísland og þann hóp sem þrífst á styrkjakerfinu í landbúnaðinum, sem starfar eftir 19. aldar kerfi og er varinn af himinháum verndarmúrum til að koma í veg fyrir að Íslendingar fái að borða franska osta, danska kjúklinga og svo framvegis.

Atli og Lilja brostu breitt á blaðamannafundi í gær þegar þau mærðu stefnuskrá Vinstri grænna sem þau sögðust fylgja í hvívetna. Það þýðir að allir hinir Þingmenn flokksins gera það ekki. Æðstu stofnanir flokksins hafa hins vegar margsinnis lýst yfir stuðningi við stjórnarsamstarfið og stjórnarsáttmálann. En það kemur þeim ekki við. Þau ein eru handhafar sannleikans.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment