Monday, March 21, 2011

Tveggja manna lýðræði

Það er sérkennilegt að hlusta á Atla Gíslason og Lilju Mósesdóttur tala um ólýðræðisleg vinnubrögð og að vaðið hafi verið yfir þau í þingflokki Vinstri grænna og innan stjórnarsamstarfsins. Þegar þau og fleiri í þingflokkum stjórnarflokkanna fannst harkalega gengið fram í niðurskurði í velferðarmálum, var sá niðurskurður lækkaður um rúman milljarð.

Felst lýðræðið í huga þessa fólks að þau og etv. hin tvö til fjögur í órólegu deildinni, ráði öllu á þinginu og í stjórnarsamstarfinu. Væri það ekki að snúa lýðræðinu á haus? Það er líka spurning hvaða áhrif þau telja sig hafa sem tveir þingmenn utan þingflokka á Alþingi. Þau munu ekki hafa rétt á fullri nefndarsetu og þar með skerðast áhrif þeirra verulega. Þau munu ekki hafa neitt að segja um fjárlög og svo framvegis.

Það eina sem hugsanlega gæti falið þessu fólki meiri áhrif væri ef þau gengu í einhvern hinna þingflokkanna, t.d. Hreyfingarinnar, sem þá yxi úr þriggja manna þingflokki í fimm. En mest yrðu áhrif þeirra ef þau verða til þess með liðsinni fleiri úr órólegu deildinni, að hrekja fyrstu hreinu vinstjórn Íslandssögunnar frá. Þá má segja að þau hefðu haft verulega mikil áhrif.

Það er líka eina skiljanlega markmiðið með háttarlagi þeirra. Það er öllu fórnandi fyrir að koma í veg fyrir að samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu komist að niðurstöðu við samningaborðið og að þjóðin fái að taka afstöðu til slíks samnings í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þau óttast að þjóðin segi já þegar hún metur hagsmuni sína að samningum gerðum.

Lýðræðisást þessara sjálfskipuðu róttæklinga er nefninlega lítils virði þegar kemur að möguleikum þjóðarinar í Evrópusambandsmálum. Þá má fórna lýðræðinu, til að standa við hlið erkiíhaldi allra flokka í skjaldborginni um sérhagsmuni 50 til 60 eigenda fiskistofnanna og 19. aldar búskaparhætti í landbúnaði.

Ljótt er þeirra lýðræði og óskiljanleg þeirra "róttækni".

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment