Thursday, April 14, 2011

Hræsni

Íhaldsmaðurinn Ásmundur Einar Daðason yfirgaf ríkisstjórnina í gær og gerði á eins dramatískan hátt og aðstæður buðu honum, í atkvæðagreiðslu um vantraust á ríkisstjórnina. Hann eins og Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir stökk frá borði kvæsandi rullur um foringjaræði og heilaga andstöðu sína við aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið.

Það er undarlegt að þremenningarnir skuli ekki sjá hræsnina í eigin málflutningi. Þeir Atli og Ásmundur geta ekki á heilum sér tekið vegna aðilarumsóknarinnar. Engu að síður hafa stofnanir Vinstri grænna samþykkt stjórnarsáttmálann þar sem gert var ráð fyrir aðildarumsókninni og meirihluti Alþingis samþykkti aðildarumsóknina. En þeir félagar sem kenna sig við bætt lýðræðisleg vinnubrögð og saka Steingrím J. Siugfússon um foringjaræði, mega ekki hugsa til þess að landsmenn fái að greiða atkvæði um aðildarsamning að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hver hefur gert Atla og Ásmund að foringjum landsins í þessum efnum? Hvor um sig er í mesta lagi með örfá þúsund atkvæða á bakvið sig sem þingmenn. Hvaðan kom þeim foringjavaldið til að ákveða að þjóðin megi ekki undir nokkrum kringumstæðum  meta sjálf kosti og galla aðildarsamnings og greiða um hann atkvæði?

Tvískinnugurinn er svo augljós og æpandi að það er ekki hægt að taka mark á svona mönnum, sem annað hvort eru með opnum augum að verja mjög þrönga og ímyndaða hagsmuni bændastéttarinnar, eða eru slegnir slíkri þjóðernisblindu að þeir eiga ekkert erindi í sósíalískum flokki.

Sovéthagfræði Lilju Mósesdóttur og blint hatur hennar á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er síðan kapituli út af fyrir sig. Kennitölukenning hennar um íslensku krónuna er eitt mesta bull sem litið hefur dagsins ljós í hagfræði. En frekjan og yfirgangurinn býður henni að segja öllum til syndanna þegar meirihluti fæst ekki fyrir skoðunum hennar. Ekkert foringjaræði þar á ferð eða hvað?

Ríkisstjórnin er auðvitað veik með eftirhreiturnar af órólegu deildinni enn í þingflokknum, þau Guðfríði Lilju Grétardóttur og Jón Bjarnason undir forystu Ögmundar Jónassonar. Best væri ef stjórninni tækist að fá stuðning þriggja til fjögurra þingmanna úr Framsókn og Sjálfstæðisflokki sem styðja Evrópusambands viðræðurnar, stjórnlagaráð og breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu og VG klofnaði formlega. En ólíklegt er að það sé í boði.

Ríkisstjórnin verður því væntanlega að skrölta áfram með þessi lík í lestinni.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment