Wednesday, April 6, 2011

Sigur þess að segja nei við umheiminn

Þegar Icesave samningarnir hafa verið felldir og ríkisstjórnin farin frá eins og rök kveða til, blasir eftirfarandi staða við:

1) Fiskveiðistjórnunarkerfinu verður ekki breytt. Fiskurinn í sjónum verður áfram í eigu 50 - 60 einstaklinga á Íslandi.

2) Umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dagar uppi og fjarar út, ef hún verður ekki beinlínis kölluð til baka á fyrsta degi endurnýjaðrar ríkissstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

3) Nýir kjarasamningar verða einungis gerðir fram til áramóta. Lágmarkslaun munu ekki hækka og samið verður um litla hækkun launa almennt.

4) Íslenskar stofnanir og fyrirtæki geta ekki vænst eðlilegrar lánafyrirgreiðslu frá bönkum og sjóðum í öðrum löndum um ófyrirséða framtíð. Vextir á lánum sem þrátt fyrir allt fást verða langt yfir markaðsvöxtum.

5) Málaferli vegna Icesave munu standa yfir í 3 til 10 ár og alger óvissa ríkja um niðurstöðuna.

6) Töluverðar líkur eru á að ESB muni lýsa því yfir að Ísland uppfylli ekki lengur helstu stoðir samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og því sé samningurinn gagnvart Íslandi ógildur.

7) Fjórfrelsið um frjálst flæði fjármagns, vinnuafls osfv. milli Íslands og annarra ríkja Evrópu verður í raun ógilt þar sem aðrar þjóðir hætta að taka mark á því, þar sem engar stofnanir ESB munu lengur líta á Ísland sem hluta samningsins. Skólagjöld íslenskra námsmanna í Evrópu munu hækka og þeir verða fyrir fjöldatakmörkunum.

8) Möguleikar íslenskra háskóla og rannsóknarstofnana á styrkjum og samvinnu við evrópskar menntastofnanir munu minnka til muna.

9) Íslenska krónan verður áfram gjaldmiðill landsins. Ef höftum á henni verður aflétt mun gengið falla um tugi prósenta sem mun koma íslenskum útgerðarfyrirtækjum í eigu 50 - 60 manna mjög til góða og þeir verða ríkari sem aldrei fyrr.

10) Enginn erlendur banki mun vilja eiga íslenskar krónur eða gera samninga sem bundnir eru íslensku krónunni. Allir viðskiptasamningar við önnur ríki og fyrirtæki í öðrum ríkjum verða að eiga tryggingar í reikningum með erlendum myntum inn á bönkum í öðrum löndum en Íslandi þar sem íslenskum bankastofnunum verður ekki lengur treyst.- Fjárfestingar í atvinnulífinu, hvort sem um er að ræða stóriðju eða gagnaver og græna atvinnustarfsemi, munu ekki njóta fyrirgreiðslu eða stuðnings erlendra aðila nema með meirihluta eignaraðild eða ráðandi hlutfalli í stjórn fyrirtækjanna.

Þetta eru bara tíu borðliggjandi dæmi, vegna þess að það er svo vinsælt að leggja fram tíu atriði um Icesave þessa dagana, en afleiðingar Nei-sins eru miklu fleiri, afdrifaríkari og ófyrirsjánlegri.

En það er mikilvægast að vera sjálfstæður á heiðum uppi eins og Bjartur  -hann borgaði aldrei skuldir óreiðumanna niður við ströndina.

Garðar Hólm

No comments:

Post a Comment